Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Nýr og glæsilegur „stafrænn“ Stapaskóli tekinn í notkun
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 25. ágúst 2020 kl. 10:38

Nýr og glæsilegur „stafrænn“ Stapaskóli tekinn í notkun

Yfir 300 börn frá átján mánaða til fimmtán ára hefja nám í glæsilegasta skóla landsins í Innri-Njarðvík. Ekki hefðbundin skólaborð og stólar heldur að mestu notað við stafræna tækni.

Nýjasti skóli Reykjanesbæjar, Stapaskóli í Dalshverfi í Innri-Njarðvík, hóf starfsemi í nýrri glæsilegri byggingu í gær og tók á móti fyrstu nemendum í dag þriðjudaginn 25. ágúst. Kennarar mættu til starfa viku fyrr og hafa undirbúið móttöku um 330 nemenda. „Það er horft til framtíðar í nýjum skóla. Það er alveg óhætt að segja það. Undirbúningur hófst í byrjun árs 2016 þannig að þetta er stór stund fyrir okkur þegar fyrstu nemendur koma til starfa,“ segja Gróa Axelsdóttir, skólastjóri, og Helgi Arnarsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar.

Sérstakur undirbúningshópur var skipaður til að ákveða hvernig staðið yrði að nýjum skóla. Niðurstaða hans kom í skýrslu í júní árið 2016 og var sú að byggður yrði heilstæður skóli sem yrði allt í senn, leik- og grunnskóli, frístunda- og tónlistarskóli, bókasafn, menningar- og félagsmiðstöð hverfisins. Með tímanum verður svo íþróttahús og sundlaug byggð við skólann. Að undangengnu útboði var ákveðið að taka tilboði Arkís arkitekta í verkið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Horft til framtíðar

„Þetta er í fyrsta sinn sem bygging skóla er undirbúinn eftir þeim hætti að farið var eftir sérstöku ferli sem kallað er frá hinu almenna til hins sérstaða. Fjölskipaður hópur hagsmunaaðila, kennara, nemenda, foreldra og stjórnenda unnu fyrst hugmyndavinnuna áður en ráðist var í hönnun skólans. Hönnunin byggist á áherslum þess hóps. Niðurstaðan var að vera með heildstæðan skóla frá átján mánaða upp í fimmtán ára og reynt að brúa bil milli leikskóla og grunnskóla. Skólinn er í þremur áföngum og nú er er verið að opna þann fyrsta sem er um sjö þúsund fermetrar en heildarflatarmálið verður um tíu þúsund,“ segir Helgi.

Upphaflega átti að opna skólann haustið 2019 en það frestaðist um eitt ár þegar útboð var kært. Framkvæmdir hófust fyrir um tveimur árum og hafa staðið yfir með þeim árangri að fyrsti áfangi er tekinn í notkun nú í upphafi skólastarfs.

„Skólinn á að bera þess merki að horft sé til framtíðar um leið og kröfum samtímans er mætt. Megineinkenni skólans verður sveigjanleiki, í kennsluháttum, í nýtingu rýmis, í skipulagi vinnudags og skilum á milli aldursstiga,“ sagði á heimasíðu Reykjanesbæjar eftir að undirbúningshópurinn hafi lokið vinnu sinni.

Ekki hefðbundin skólaborð eða tússtöflur

Gróa er afar ánægð með nýjan Stapaskóla en starfsemi hans hófst í bráðabirgðahúsnæði haustið 2018 sem útibú frá Akurskóla. Gróa var ráðin skólastjóri á síðasta ári og hefur stýrt skólanum síðan. Hún segir að kennsla og þjónusta við nemendur verði framúrstefnuleg.

„Við byggjum allt á teymiskennslu, hjá kennurum, starfsfólki og nemendum. Öll húsgögn eru til dæmis keypt inn þannig að allir eiga að geta fundið sér vinnuumhverfi við hæfi. Vinnuumhverfið er fjölbreytt. Þetta er ekki hefðbundin lokuð skólastofa og öll þjónusta við nemendur fer fram á þeirra stað. Þeir þurfa ekki að fara neitt annað. Tveir árgangar eru í sama rými sem við köllum tvenndir sem eru opnar með litlum hópaherbergjum og hring í miðjunni sem stúkar rýmið aðeins af. Umhverfið er fjölbreytt eins og húsgögnin og aðstaðan í rýminu,“ segir Gróa.

Þá er stafræn tækni tekin alla leið í Stapaskóla. „Já, við nýtum okkur tæknina alla leið. Hjá 8.–10. bekkjum grunnskóla Reykjanesbæjar hefur verið kennt með snjalltækjum og hver nemandi hefur fengið eitt tæki til að nota í náminu. Í Stapaskóla stígum við aðeins lengra og verðum með tæki á alla aldurshópa, alveg niður í leikskólastigið. Við fengum styrk fyrir stafræna notkun og tækni fyrir leikskólastigið. Við ætlum okkur að vera framúrstefnuleg og nýta okkur alla tækni í námi þannig að börnin nái sem bestum árangri.

Það eru engar tússtöflur og engar töflur hangandi á veggjum. Eingöngu skjáir á hjólum sem hægt er að færa til. Það eru há borð og lág borð, sófar og setkollar. Bæði nemendur og kennarar þurfa að aðlagast breyttum starfsháttum,“ segir skólastjórinn.

Almenningsbókasafn, íþróttahús og sundlaug

Kennarar voru valdir sérstaklega inn og Gróa sagði að hún væri mjög spennt að fá þá til starfa. En voru þeir allir tilbúnir í svona mikla rafræna kennslu og hópakennsla?

„Þeir vita að það er teymiskennsla og samþætting námsgreina og unnið út frá heildstæðum verkefnum. Það verður ekki þannig að einn kennari er með einn hóp í einhverju fagi heldur erum við öll saman að kenna og hóparnir eru mismunandi þannig að nemendur ættu að fá betri þjónustu.“

Helgi segir að í öðrum áfanga verði íþróttahús og almenningssundlaug og um leið opnum við almenningsbókasafn. „Þaðan verður hægt að horfa inn í íþróttahúsið þannig að það ætti að hljóma vel fyrir foreldra íþróttabarna sem geta beðið þar og einnig fylgst með. Í þriðja áfanga verður lágreist bygging fyrir yngstu nemendurnar, allt niður í eins árs til fimm ára.

Það er óhætt að segja að þetta sé gríðarleg bylting í hverfi þar sem bjuggu nokkur hundruð manns fyrir rúmum áratug. Íbúafjölgun hefur verið mest í Innri-Njarðvík en fyrir er Akurskóli sem var opnaður árið 2005. Íbúar eru orðnir nærri tuttugu þúsund. Mikið er lagt upp úr því að Stapaskóli sé líka menningar-, félags- og íþróttamiðstöð fyrir íbúa í þessu hverfi því það er talsvert langt í margvíslega þjónustu í miðbænum og nágrenni hans,“ segir Helgi.

Bygging á áætlun

Byggingaframkvæmdir hafa gengið nokkuð vel. Algengt er í svona framkvæmdum að 10% af byggingarkostnaði fari í búnað en Stapaskóli er talsvert undir kostnaðaráætlun í þeim lið þrátt fyrir öll innkaup á nútímalegum stafrænum búnaði enda sparast talsverðir fjármunir í innkaupum á hefðbundnum stólum og borðum.

Fyrsti áfangi skólans kostar um 2,5 milljarð. Aðrar áætlanir, t.d. byggingakostnaður er á áætlun en heildarkostnaður verksins verður líklega á bilinu fjórir til fimm milljarðar en það skýrist hvernig gengur með næstu tvo áfanga. Hönnun og útboð á öðrum áfanga fer í gang fljótlega.

Gróa segir að leiksvæði úti sé glæsilegt og fjölbreytt; hreystivöllur, trampólín og rólur. Nóg um að vera. „Um 330 nemendur byrja í skólanum í haust. Við erum mjög spennt fyrir því að hefja skólahald 24. ágúst og íbúarnir líka,“ segir Gróa.

Helgi Arnarson og Gróa Axelsdóttir fyrir framan Stapaskóla viku fyrir opnun hans. 

Stapaskóli í Reykjanesbæ